Og hér er von þjóðarinnar um réttláta rannsókn og þeir sem ráðast að henni eru í raun að benda á sig og sína sem vel hugsanlega með eitthvað sem þeir vilja ekki láta skoða.. eru sumsé að koma uppum sig sjálfir og því ástæða til að skoða þá sérstaklega!

http://www.dv.is/brennidepill/2009/6/19/eg-gerdi-samning-vid-thjodina/

Ég gerði samning við þjóðina

Bls. 18 í dagblaði DV 12. júní 2009.

Eva Joly finnur til samkenndar með íslensku þjóðinni og telur mjög mikilvægt fyrir framtíð hennar að ábyrgðin verði leidd fram í dagsljósið. Joly er vinnuþjarkur og hefur unnið tvöfalda vinnu frá 16 ára aldri. Sem nýkjörinn þingmaður á Evrópuþinginu þykir henni ágætt að vera í tengslum við raunveruleikann í rannsóknum á íslensku bankahruni. Lýðræðið er henni heilagt eins og fram kemur í spjalli hennar við Jóhann Hauksson. En það blómstrar ekki nema gagnsæi sé haft að leiðarljósi.

„Þetta er í fyrsta skipti sem teknar eru af mér ljósmyndir síðan ég var kjörin á Evrópuþingið fyrir síðustu helgi,“ segir Eva Joly brosandi þegar ljósmyndari DV mundar sig til verka í upphafi viðtals.
Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara í bankahruninu, kom eins og stormsveipur inn í þjóðlífið og tjáði sig í Silfri Egils í Sjónvarpinu síðla vetrar um mikilvægi þess að hugsanleg efnahagsbrot í tenglsum við bankahrunið, markaðsmisnotkun bankanna eða undanskot á miklum fjármunum yfir í skattaskjól yrðu rannsökuð í þaula og gefnar út ákærur ef svo bæri undir. Eva talar af reynslunni. Hún gaf sig ekki í stærsta fjársvika- og mútumáli sem farið hefur fyrir dómstóla í Frakklandi á síðari áratugum, Elf-málinu svonefnda, þótt henni væri hótað og fjölmiðlar og herskarar lögfræðinga reyndu að skaða málatilbúnaðinn.

Eva Joly kjörin á Evrópuþing
Eva var um síðustu helgi kjörin á Evrópuþingið fyrir flokk græningja og óháðra borgara í París sem berjast fyrir lýðræðisumbótum og auknu gagnsæi. Flokkurinn náði góðum árangri í Frakklandi. „Þetta er rökrétt framhald af 15 ára starfi mínu. Eins og fram hefur komið í bókum mínum og greinum hef ég afhjúpað spillingu, skattaskjól og peningaþvætti og svo hitt hversu alvarleg spillingin er fyrir fátæk þróunarlönd. Utanríkisstefna Frakka snýst til að mynda ekki um þróunaraðstoð heldur að vinna gæði frá þróunarlöndum. Þetta hefur valdið mér hugarangri. Ég er búin að fjalla um þessa hluti í hálfan annan áratug. Ég hef unnið að réttarfarsbótum að þessu leyti. Auður safnast á fáar hendur á kostnað fjöldans. Ég hef komist að því hversu illa gengur að uppræta eða stemma stigu við spillingu. Þá baráttu er erfitt að vinna. Ég hugsaði með mér að ég gæti þó reynt að halda málstaðnum á lofti með því að gefa mig að stjórnmálum. Ég sé fyrir mér verkefni eins og að bæta bókhaldsreglur fyrirtækja innan Evrópusambandsins og auka gagnsæi í þeim efnum. Ég lít til Obama, forseta Bandaríkjanna, og óska þess að Evrópusambandið og Bandaríkin geti komið sér saman um breytingar sem taka á undanskotum fjármuna í skattaskjól og auka gagnsæi.“

Skuldbundin fólkinu
Margir telja að bankahrunið á Íslandi sé eitt hið mesta og alvarlegasta sem dunið hefur yfir nokkra vestræna þjóð áratugum saman. Því sé mikilsvert fyrir samfélag þjóðanna að rannsaka aðdraganda þess og rætur gaumgæfilega. Undir þetta tekur Eva Joly og segir mikilvægt að komast að því hver gerði hvað og hver beri ábyrgð. En að því sögðu eru einnig raddir sem segja að Eva fari fram af harðfylgi og geri kröfur. „Það er satt. Ég lít svo á að ég hafi ekki gert samning við stjórnvöld heldur við þjóðina. Kveikjan að þessu var Fésbókarsíða sem sett var upp eftir að ég hafði setið fyrir svörum í sjónvarpsþætti Egils Helgasonar. Um 2.500 manns skoruðu á mig þá þegar nóttina eftir að leggja þjóðinni lið við að rannsaka möguleg brot í tengslum við bankahrunið. Ég upplifði það býsna sterkt að ég gæti gefið þessu fólki einhverja von um réttlæti. Og ég er þeirrar skoðunar að það sé einmitt í krafti almenningsálitsins sem unnt er að fylgja eftir rannsókninni á bankahruninu. Þegar ég gaf kost á mér í mars sagði ég við fjölmiðla hér að ég myndi einungis leggja málinu lið ef ég teldi að það skilaði árangri.“

Tjáning og vald
Ýmsir hafa orðið til þess að vefengja hæfi Evu til þess að taka að sér ráðgefandi verkefni vegna orða sem hún hefur látið falla opinberlega um möguleg fjársvikamál í tengslum við bankahrunið. Benda má á grein sem Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður skrifaði í Morgunblaðið á sínum tíma þar sem hann vakti athygli á þessu.
Nú hafa einnig verið bornar brigður á hæfi Sigríðar Benediktsdóttur hagfræðiprófessors í rannsóknarnefnd Alþingis eftir orð hennar um óhóflega græðgi og glæfralegt gáleysi þeirra sem hafa áttu eftirlit með rekstri bankanna og tryggja áttu fjármálastöðugleika. Hvað skyldi Eva hafa um þetta að segja?
„Það er reynt að gera rannsóknarstarfið tortryggilegt og grafa undan því. En það hefur reynst þýðingarlaust til þessa. Það er ekki hægt að skipa borgurum að þegja. Og alls ekki ætti að þagga niður í þeim sem búa yfir reynslu og þekkingu. Tjáningarfrelsið er grundvallarmannréttindi. Það að mega tjá skoðanir sínar opinberlega eru grundvallarréttindi. Og það má alltaf gera ráð fyrir því að þeir sem mögulega hafa framið efnahagsbrot og eiga hagsmuna að gæta haldi uppi vörnum með ógnunum og tilraunum til þöggunar. Þeir óska þess, sem eru vitanlega draumórar, að reglan um að allir séu saklausir uns sekt er sönnuð komi í veg fyrir grunsemdir og rannsókn mála. En þannig er þetta ekki í raunveruleikanum. Hafir þú minnsta grun um brot getur verið ástæða til frekari rannsóknar. Það getur enginn lögfræðingur komið í veg fyrir það. Það sem ég tjáði mig um í sjónvarpsviðtali forðum var aðeins um það sem var aðgengilegt um íslenska bankahrunið í fjölmiðlum eins og í The Economist. Og reynsla mín sagði mér að á Íslandi væri ástæða til að taka málin föstum tökum og hefja skipulega rannsókn. Um mál Sigríðar er það að segja að hún hefur í samræmi við það sem ég hef sagt tjáð almennar grunsemdir sínar og skoðanir. Það sem ekki má í þessu sambandi er að halda fram sekt tiltekinnar persónu. Sem rannsakandi hefur hún aðeins tjáð grunsemdir sínar almennum orðum. Hugtakið um mannréttindi hefur verið misnotað í þessu sambandi. Margir virðast líta svo á að grunnreglan um að allir séu saklausir uns sekt er sönnuð eigi með einhverjum hætti að koma í veg fyrir rannsóknir.“

Gegn meginstraumnum
Eva hefur reynt allt þetta sjálf í hlutverki saksóknara í stórfelldum efnahagsbrota- og spillingarmálum í Frakklandi. Málum þar sem hún hefur með áþreifanlegum hætti tekist á við úrvalshópa sem fara með völd í stjórnmálum og viðskiptum. „Hættan stafar ekki af orðum þessa fólks heldur því sem það gerir, tekur sér fyrir hendur. Að tjá sig um slíkt er einfaldlega spurning um mannréttindi.
Það gerðist fyrir nokkrum dögum að Bongo, einræðisherra í Gabon í Afríku, féll frá en hann og Gabon komu við sögu í Elf-málinu sem ég rannsakaði. Heima í Frakklandi hylltu menn Bongo. Ég sá ekki ástæðu til þess þegar ég var beðin um að tjá mig um fráfall hans í fjölmiðlum. Ég sagði aðeins að Bongo hefði verið maður sem ekki hefði miðað athafnir sínar við hag þjóðar sinnar. Hann hefði verið framlenging á hendi franskrar nýlendustefnu og Frökkum bæri að skila þjóðinni þeim peningum sem þeir hefðu haft af íbúum Gabon. Mér er það óskiljanlegt hvernig menn geta leitt hjá sér hvernig farið hefur verið með þessa þjóð.“

Þeir sem hafnir eru yfir lögin
Í bók Evu Joly, „Justice under Siege“ eða „Réttlæti í herkví“, er að finna orðið refsileysi. Vert er að fá nánari útskýringar Evu á þessu hugtaki. „Að vera hafinn yfir lögin er merking þessa orðs. Þetta er stétt manna sem telur sig ekki þurfa að lúta reglum réttarkerfisins. Hún lítur svo á að lögin séu ekki ætluð þeim heldur öðrum. Í spilltum löndum mútar þessi stétt dómurum. Meðal þróaðra þjóða á Vesturlöndum mynda menn bræðrareglu innan þessarar stéttar. Lendi einhver þeirra bak við lás og slá koma reglubræður á vettvang og vitna um sakleysi eða sjúkdóma og þar með er viðkomandi sleppt. Ég hef tekið þátt í fjölþjóðlegu starfi lögfræðinga. Við tökum þessu sem meginreglu og viljum berjast gegn þessari mismunun, refsileysi hinna ríku og voldugu. Við höfum eitt nýlegt dæmi frá Frakklandi. 15. maí var kveðinn upp dómur yfir Charles Pasqua, fyrrverandi innaríkisráðherra, en hann er nú 82 ára. Hann hafði verið ákærður fyrir spillingu og fyrir að hafa komið undan sem svarar 170 milljónum króna. Þetta var hafið yfir allan vafa. Ríkislögmaður krafðist eins árs skilorðsbundins fangelsis. Í næsta réttarsal var verið að dæma 19 ára mann. Hann hafði stolið sem svarar 40 þúsund íslenskum krónum í matvörum. Viltu giska á hvaða dóm hann hlaut? Jú, eins árs fangelsi óskilorðsbundið. Íslenska þjóðin er sködduð og ég finn til samstöðu með henni og finn til með henni þegar ég hugsa til afleiðinganna af bankahruninu. Byrðarnar sem henni er ætlað að bera eru eins og eftir mikla styrjöld. Það er því mjög mikilvægt fyrir framtíðina að ábyrgðin sé dregin fram í dagsljósið og að menn verði dregnir fyrir rétt. Meira get ég ekki sagt um Ísland og hugsanlegt refsileysi að sinni þar sem ég á hlut að rannsókninni. En ekkert er mikilvægara fyrir Íslendinga nú en að þessi rannsókn gangi alla leið.“

Gagnsæi undirstaða lýðræðis
„Segja má að ég hafi komið mér upp rökstuddri kenningu um það hverngi málum sé háttað út frá reynslu og þekkingu fjölda fólks. Hún er sú að dómskerfinu í öllum löndum reynist auðveldara að dæma niður fyrir sig en upp fyrr sig ef svo mætti að orði komast.“
Sjálf hefur Joly sett fram þrjár grundvallarreglur um réttlátt réttarkerfi. Hin fyrsta er sú að gagnsæi er eðlileg fylgiregla frelsis; gagnsæi án frelsis brýtur í bága við mannréttindi. Frelsi og ógagnsæi greiðir leið til lögbrota.
Önnur reglan er sú að hnattvæðing í lagalegum skilningi er lífsnauðsynleg hnattvæðingu viðskiptanna. Löndum sem hylma yfir lögbrot og fjársvik ætti að meina um forréttindi í bankastarfsemi.
Þriðja regla Evu er á þá leið að lögbrot valdamanna skaða mikilvæga hagsmuni þjóða. Hert viðurlög, heimild til eignaupptöku og aðgætni í bankastarfsemi eru varnir sem grípa verður til gegn slíkri samfélagsógn, segir Eva í áðurgreindri bók sinni.
„Þetta með frelsið og gagnsæið er áhugavert og jafnframt afar þýðingarmikill grunnur lýðræðisins. Þar sem gagnsæi er ekki til að dreifa þar er heldur ekkert lýðræði. Það er mikilvægt að borgararnir axli ábyrgð, bæði sem einstaklingar og í sínu félagsstarfi. Þeir eiga að spyrja spurninga. Við sjáum til dæmis í Frakklandi hversu illa stjórnvöld taka gagnrýni. Þar er reynt að þagga niður gagnrýnisraddir. Það er afar mikilvægt að standa gegn tilraunum valdhafa til þess að ná yfirráðum yfir upplýsingaflæðinu. Þetta er vitanlega eitt af skilyrðum lýðræðisins. Í Noregi eru lög sem kveða á um aðgang fjölmiðla að flestum gögnum innan sólarhrings. Borgarar eiga rétt á að fá afrit af bréfum sem berast hinu opinbera og bréfum sem það sendir frá sér. Í þessu felst mikið gagnsæi. Ég tel að þetta sé lífsspursmál fyrir lítið samfélag eins og íslensku þjóðina.
Það er hægt að skoða Ísland sem eins konar kennsludæmi um afleiðingar þess þegar losað er um regluverk og fjármálastarfsemi gefinn laus taumurinn. Ísland getur verið dæmi um hversu langt er hægt að ganga. En þetta er með svipuðu móti í Bandaríkjunum og á Bretlandi þar sem ástandið er alvarlegt og engin leið að vita hvað framtíðin ber í skauti sér þar. Þess vegna nær áhugi á íslenska bankahruninu langt út fyrir landsteinana.“

Víkur ekki frá kröfum sínum
Fram kom á Alþingi og í fjölmiðlum fyrir helgina að forsætisráðherra, fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra hefðu fullan hug á að verða við kröfum Evu Joly um aukinn mannafla til rannsókna á mögulegum efnahagsbrotum í tengslum við bankahrunið, aðstöðu og fleira. Kvisast hafði út að Eva væri komin á fremsta hlunn með að hætta afskiptum af rannsókninni. Í samningi sem gerður var við hana fyrr í vetur er ákvæði um að hún veiti ráðgjöf til ársloka 2010 en samningurinn er uppsegjanlegur af beggja hálfu.
„Ég óska þess innilega að rannsóknin gangi vel og skili árangri. Þau skilaboð sem ég hef látið frá mér fara snúast um þau meðul sem ég tel að verði að vera til staðar til þess að svo megi verða. Það er krefjandi að reyna að breyta veruleikanum, en mér finnst ég bera ábyrgð.“

Vinnuhestur frá 16 ára aldri
Eins og fram kom í upphafi spjallsins við Evu Joly er hún orðin þingmaður á Evrópuþinginu. Spyrja má hvort hún hafi tíma til að sinna öllum þessum verkefnum og hvort þingmennskan og ráðgjöfin hér á landi geti farið saman.
„Þú þekkir mig greinilega ekki en hefur lesið ýmislegt eftir mig. Ég hef unnið átján tíma á sólarhring síðan ég var 16 ára. Ég hef alltaf verið í tvöfaldri vinnu. Ég vann fulla vinnu með menntaskólanum. Ég tók fínt lögfræðipróf og vann námsárin og var jafnframt í móðurhlutverkinu á þeim tíma. Ég bætti við mig framhaldsnámi, vann meðfram því og var í móðurhlutverkinu. Ég hef stundað ábyrgðarstörf í hundrað kílómetra vegalengd að heiman, stundum vann ég á næturnar. Svona mætti áfram telja. Sem þingmaður á Evrópuþinginu finnst mér að það geri mér gagn að vera tengd ákveðinni rannsóknarvinnu og geta fylgt eftir rannsókninni hér. Þetta eins og bætir hvort annað upp. Á þinginu verða teknar fyrir spurnignar um nýja löggjöf um eftirlit með fjármálamörkuðum svo dæmi sé tekið. Þá er gott að vera í góðu sambandi við raunveruleg viðfangsefni. Þetta vefst með öðrum orðum ekkert fyrir mér.“

Sannleiksnefnd og réttarkerfi
Hér á landi halda margir því fram að réttast hefði verið að ráða einvörðungu útlendinga til rannsókna á öllum þáttum bankahrunsins, ekki síst vegna smæðar þjóðfélagsins og þess kunningjaveldis sem hér kann að ríkja. Hvað segir Eva um slík rök?
„Þetta er vandi hér á Íslandi. En ég held að Ísland sé réttarríki. Sannleiksnefndir eru frekar verkfæri sem grípa þarf til í þróunarlandi. Maður setur ekki á fót sannleiksnefnd í réttarríki. Þar er stuðst við réttarkerfið sjálft. Maður dregur fólk fyrir dóm.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband